146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[19:09]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Vissulega er það svo að það þarf að greina á milli sveitarfélaga og ríkis hvað varðar fjármögnun barnaverndarnefnda annars vegar og Barnaverndarstofu. Hvað varðar fjármögnun Barnaverndarstofu tel ég einfaldlega rangt að fullyrða að hún sé vanfjármögnuð. Ég held að það hafi verið ágætlega staðið að fjármögnun Barnaverndarstofu. Vissulega er það svo í öllum ríkisrekstri að alltaf er hægt að gera meira. En Barnaverndarstofa hefur einmitt getað sinnt mjög vel því starfi sem henni er ætlað að sinna. Í þessari stefnu er eitt höfuðúrræðið bygging nýs meðferðarheimilis. Það hefur verið fjármagnað bæði hvað varðar framkvæmdarkostnað og rekstrarkostnað. Að auki hefur ráðuneytið yfir fjármunum að skipa til þess að reka þingsályktunartillögur sem þessar eða veita þeim tillögum sem þar á að vinna framgang, þannig að þessi áætlun á að vera vel fjármögnuð.