146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[19:35]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar, mál sem ég hugsa að við öll hér inni séum hjartanlega sammála um að sé mikilvægt og að við viljum vanda okkur mjög við.

Það stendur í greinargerð með þingsályktuninni, og kom reyndar einnig fram í framsögu hæstv. ráðherra, að þessi framkvæmdaáætlun taki mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðislegri misnotkun, auk annarra alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Ég gef eiginlega mér að alla vega einn af þessum öðrum alþjóðlegu mannréttindasáttmálum sem Ísland er aðili að sé samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég hefði talið mjög gott að telja hann sérstaklega upp hérna líka því að við á Alþingi erum nýbúin að fullgilda þennan samning. Hann er hins vegar enn þá svolítið nýr fyrir okkur, bæði fyrir okkur sem samfélag og líka nýr fyrir Alþingi sem löggjafarvald þegar kemur að því að hafa þessi mál, þ.e. málefni fatlaðs fólks og markmið samnings Sameinuðu þjóðanna, undir í allri umfjöllun okkar um öll mál, hvaða mál sem er. Það var þess vegna sem ég kvaddi mér hljóðs, vegna þess að ég tel mikilvægt að ítreka þetta.

Í liðum 8–9, um MST-fjölkerfameðferð og Barnahús, segir, með leyfi forseta:

„Starfsemi Barnahúss hefur verið í stöðugri þróun og á árinu 2016 veitti ráðuneytið Barnaverndarstofu 3 millj. kr. framlag til að styrkja rannsókn og meðferð mála þegar grunur er um að fatlað barn hafi sætt ofbeldi.“

Mér finnst þetta mjög gott. Það er gríðarlega mikilvægt að fötluð börn séu nefnd sérstaklega hérna vegna þess að því miður er það svo að fötluð börn eru í aukinni áhættu á því að vera beitt hvers konar ofbeldi. Ég velti því fyrir mér hvort það hefði kannski mátt íhuga það að nefna fatlað fólk á fleiri stöðum í textanum.

Mig langar máli mínu til stuðnings að vísa í 23. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fjallar um virðingu fyrir heimili og fjölskyldu. Það tengist beint inn í þessa þingsályktunartillögu. Í 23. gr., í lið 1, segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir í því skyni að uppræta mismunun gagnvart fötluðu fólki í öllum málum sem lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum, á sama hátt og gildir um aðra, til þess að tryggja megi: …“ — Svo eru taldir upp ákveðnir þættir sem þarf að tryggja.

Svo segir áfram í 4. lið 23. gr., með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu tryggja að barn sé ekki tekið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema lögbær yfirvöld ákveði, með fyrirvara um endurskoðun dómsvalds og í samræmi við gildandi lög og málsmeðferð, að slíkur aðskilnaður sé nauðsynlegur með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Barn skal aldrei taka frá foreldrum sínum vegna fötlunar barnsins eða annars foreldris eða beggja.“

Þetta tengist sérstaklega því sem fjallað er um í B-lið, 3. kafla, sem heitir Leiðbeinandi verklagsreglur um tilkynningar, þar sem fjallað er um að tilkynningar til barnaverndar verði ekki sjálfkrafa að barnarverndarmáli heldur þurfi barnaverndarnefnd sem tekur á móti tilkynningunni hverju sinni að meta efni tilkynningar á þeim grundvelli og taka ákvörðun um hvort tilefni sé til aðgerða. Því er ég alveg fyllilega sammála. Ég er ekki að gagnrýna þennan punkt heldur tel ég að þarna þurfi að styrkja eða huga að á öðrum stöðum hvernig styrkja megi getu fatlaðra foreldra til þess að sjá um börnin sín og líka að auka þekkingu barnaverndarnefndanna, bæði á samningnum og aðstæðum fatlaðra barna og fatlaðra foreldra. Þetta gildir nefnilega ekki síður um það sem fjallað er um í C-lið, 7. kafla, Skipan starfshóps um breytingar á barnaverndarlögum. Þar held ég að væri sérstaklega mikilvægt bæði þegar starfshópurinn hefur verið skipaður og svo þegar farið er í það að rýna í lögin að hafa samning Sameinuðu þjóðanna sem eitt af því sem tekið er mið af og hvernig megi tryggja frekar réttindi bæði fatlaðra barna og fatlaðra foreldra. Stuðningurinn sem til að mynda fatlaðir foreldrar fá frá hinu opinbera getur skipt svo gríðarlega miklu máli í því hvernig þeim er gert kleift að ala upp börnin sín í okkar flókna, tæknivædda nútímasamfélagi. Þetta held ég að sé alveg hægt að gera og ekki bara að hægt heldur ber okkur skylda til að gera þetta af því að við erum búin að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en mér fannst þetta vera atriði sem væri mjög mikilvægt að koma inn á í þessari umræðu. Af því að það er ekki vísað beint í samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk fannst mér að það yrði að nefna það á nafn hér í umræðunni. Ég vil að öðru leyti taka undir og fagna þeim góðu ábendingum sem komið hafa fram hjá öðrum hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Það er búið að vera mjög gagnlegt og fróðlegt að fylgjast með henni. Ég er alveg sannfærð um það að saman getum við búið til ansi góða áætlun þegar kemur að barnavernd á Íslandi.