146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Umhverfis- og samgöngunefnd hélt í morgun opinn fund um málefni verksmiðju United Silicon í Helguvík. Ég vil enn einu sinni nota tækifærið til að þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir góð viðbrögð við þeirri beiðni minni að halda þennan fund. Á fundinum kom ýmislegt athyglisvert fram. Hæstv. umhverfisráðherra fór þar yfir hugmyndir sem hún hefur um hvernig hægt sé að nota græna hvata til að fá stóriðju til að menga minna. Það olli þó meiri vonbrigðum að í ljós kom að ekki hafði farið nein ítarleg skoðun fram innan ráðuneytis, hjá lögfræðingum þess, um hvort í ívilnunarsamningum við verksmiðjuna væru einhver úrræði til að grípa til aðgerða gagnvart verksmiðjunni nú þegar. Það sem vakti þó ekki síst athygli mína voru orð og ummæli forsvarsmanna bæjarfélagsins í Reykjanesbæ sem hvöttu okkur þingmenn til að skoða umhverfi þessara mála því að þegar ferlið væri einu sinni komið af stað, búin lóðaúthlutun í fortíðinni og það ferli komið af stað, hefðu bæjaryfirvöld enga aðkomu að því lengur um hvernig um þau mál færi, eftirlitsstofnanir sæju um eftirlit með starfsemi sem þar væri o.s.frv.

Ég held að við hv. þingmenn ættum að kynna okkur betur þau ummæli sem ég hef hér illa og lauslega sagt frá, ummæli sveitarstjórnarmanna í Reykjanesbæ. Það er augljóst að þetta er mál sem gæti komið til okkar kasta og við gerðum vel að taka rækilega til í þessu lagaumhverfi. Fulltrúi íbúasamtaka bæjarins var ósköp skýr, hann vill að verksmiðjunni sé lokað og frekari uppbygging eigi sér ekki stað. (Forseti hringir.)Við skulum ekki gleyma því að þó að þessi verksmiðja sé tekin til starfa er önnur að banka upp á (Forseti hringir.) og miðað við orð forsvarsmanna verksmiðjunnar getur tekið eitt til tvö ár að koma svona verksmiðju í það lag sem menn vilja hafa hana í.