146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vek athygli á máli um keðjuábyrgð sem félagsmálaráðherra hefur kynnt í ríkisstjórninni. Við Vinstri græn höfum lagt fram þingsályktunartillögu sem lýtur að keðjuábyrgð, ábyrgð verktaka á undirverktökum. Í frumvarpi félagsmálaráðherra er eingöngu tekið á því að keðjuábyrgð nái til verklegra framkvæmda, erlendra undirverktaka og starfsmannaleigna. Það er ekki tekið á innlendum aðilum. Út af hverju? Þær umsagnir sem hafa komið um mál okkar Vinstri grænna um keðjuábyrgð lúta allar að því að setja lagaumgjörð um keðjuábyrgð, að það sé öflugasta vopnið til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð, jafnvel mansal, tryggja að undirverktakar greiði opinber gjöld, það séu ekki svartar launagreiðslur o.s.frv.

Eina neikvæða umsögnin um mál okkar Vinstri grænna var frá Samtökum atvinnulífsins. Þau töldu ekki rétt að lögbinda þetta, það væri hægt að mæta því öðruvísi. Það vekur athygli að núverandi hæstv. félagsmálaráðherra var framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Ætli sé eitthvert frjálst flæði þar á milli? Ég bara spyr. Það er mjög umhugsunarvert að ganga ekki alla leið þar sem þeir aðilar vinnumarkaðarins sem hafa verið að undirbúa þetta frumvarp vilja gera það. ASÍ gagnrýnir harðlega að ekki sé gengið lengra. Hvað er verið að hlífa mönnum? Þarna væri hægt að taka virkilega á þessu vandamáli í íslensku samfélagi og hagkerfi, ná inn tekjum fyrir ríkið og koma í veg fyrir félagsleg undirboð á vinnumarkaði sem eru óásættanleg.