146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Við hv. stjórnarandstöðuþingmenn notum oft þennan lið, störf þingsins, til að kvarta yfir störfum þingsins. Mig langar til að bregða aðeins út af vananum og tala um það sem vel fór í þessari viku í störfum þingsins.

Mig langar sér í lagi að segja frá umræðu í hv. utanríkismálanefnd sem fór fram núna á þriðjudaginn þar sem við fengum loksins þá gesti sem minni hlutinn hafði beðið um fyrir þó nokkru síðan. Hv. formaður hafði með semingi samþykkt að eiga þessa umræðu með okkur. Umræðuefnið var þjóðernishyggja og þjóðernispopúlismi. Umræður sem áttu sér stað í nefndinni voru þess eðlis að þetta hefði að sjálfsögðu átt að vera opinn fundur svo fólk hefði getað fengið að heyra og sjá hvað fór fram. Þjóðernispopúlismi er nákvæmlega það sem er að skjóta rótum víðs vegar í Evrópu. Við sjáum svipuð „trend“ þegar kemur að Bandaríkjunum með tilkomu Donalds Trumps. Við sjáum svipaða hluti gerast í kjölfar Brexit.

Það að skilja hvað þjóðernispopúlismi er og hvaða stóru línur það eru í pólitíkinni sem eru að myndast er rosalega mikilvægt fyrir nefndastörfin. Mér finnst við hafa gert allt of lítið af því að sækja okkur sérfræðiþekkingu, tala við stjórnmálafræðinga og sagnfræðinga en ekki bara verkfræðinga og skipulagsfræðinga og lögfræðinga þegar við á. Við þurfum að skilja stóra samhengið. Nefndir okkar þurfa að líka að vera miðstöðvar þekkingar og menntunar. Við eigum að deila þeirri menntun og þekkingu með öðrum.

Að svo mæltu legg ég til að fundir fastanefndir Alþingis verði opnir.