146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Albert Guðmundsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mér mikill heiður að standa hér og ávarpa þingheim í fyrsta sinn. Það er mér sérstaklega ánægjulegt að taka sæti á þingi sem fulltrúi yngri kynslóðarinnar og sem yngsti sitjandi fulltrúi hv. þings í dag er ég þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt. Þótt ég tilheyri yngri kynslóðinni langar mig að tileinka mín fyrst orð í þessum ræðustól þeim sem eldri eru. Málefni aldraðra eru jú málefni okkar allra sem höfum von um að eldast hér á landi og hefur mér oft fundist vanta að þeir sem yngri eru láti í sér heyra varðandi þau mál.

Þær umbætur sem gerðar voru á almannatryggingakerfinu fyrir lok síðasta þings voru skref í rétta átt þar sem bótaflokkum var fækkað, grunnlífeyrir hækkaður og kerfið einfaldað ásamt auknum sveigjanleika við starfslok og hækkun lífeyristökualdurs. Sérstaklega mikilvægur liður í því kerfi er frítekjumark sem er stórt hagsmunamál. Það er mikilvægt að fólk geti bætt stöðu sína með atvinnutekjum eftir að lífeyristökualdri er náð án þess að þurfa að líða fyrir það með of mikilli skerðingu. Fagna ég því þeim áformum ríkisstjórnarinnar, sem koma fram í fyrirliggjandi fjármálaáætlun, um að hækka frítekjumarkið á umræddu tímabili.

Í samfélagi sem horfir fram á öra fjölgun aldraðra þurfum við að haga hvötum kerfisins þannig að fólk sem er um það fært sjái hag sinn í því að afla tekna. Þetta er ekki einungis fjárhagslega ábatasamt heldur einnig spurning um sjálfstæði einstaklinga og samfélagslega virkni þeirra. Á sama tíma og ég gleðst yfir fyrirætlunum stjórnvalda hvet ég til þess að gengið verði enn lengra með batnandi efnahag og tekjuskerðingar lækkaðar að fyrirmynd annarra Norðurlandaþjóða. Við þurfum að standa vel að málum þessa hóps. Það er skylda okkar að tryggja að þeir sem hafa skilað góðu dagsverki og greitt til samfélagsins alla ævi geti lifað áhyggjulaust ævikvöld og einnig að við hvetjum til virkni þeirra sem starfsgetu hafa og kjósa að halda áfram að vinna.

Ef við getum ekki tryggt það getum við ekki vænst þess að við byggjum hér samfélag þar sem komandi kynslóðir kjósa að eldast.

(Gripið fram í: Vel mælt.)