146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom í ræðu sinni áðan inn á að í umhverfis- og samgöngunefnd hefði verið haldinn opinn fundur í morgun um málefni United Silicon. Þar komu fulltrúar ráðuneytisins, ásamt hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, og Umhverfisstofnunar ásamt fulltrúum frá Reykjanesbæ.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, þetta var góður og gagnlegur fundur, upplýsandi, þar sem fram fóru málefnalegar umræður um aðdraganda þessarar starfsemi og þeirra mála sem hafa komið upp og svo hver staðan væri í dag. Það sem var kannski einstaklega ánægjulegt við þennan fund, ólíkt því sem hefur áður þekkst í þessari umræðu, er einmitt að hann var málefnalegur, menn voru lausir við stórar yfirlýsingar og héldu sig við staðreyndir máls og lög og reglur. Brýning mín til þingheims í þessu máli sem öðrum er að oftast er gáfulegra að sjá hvernig málið er vaxið áður en menn halda í þá vegferð að vera með stórar yfirlýsingar.

Í þessu máli snýst það um að skoða af hálfu þingnefndarinnar hvað hafi farið úrskeiðis, hvað væri mögulegt í framkvæmd laganna og eftirliti sem er mögulega ábótavant af hálfu framkvæmdarvaldsins og hvað þarf að laga. Það er sérstaklega mál þingsins. Hvað er í löggjöf okkar um þessi málefni sem þarfnast mögulegrar skoðunar?

Þetta eru allt mjög góð atriði. Það er líka sérstaklega áhugavert og gott að heyra að þingmenn Vinstri grænna eru tilbúnir að vera með í þeirri vegferð og ætla ekki að neita því að hlutur þeirra í þessu máli frá í ríkisstjórninni 2009–2013 er stór, m.a. sem snýr að Bakka og Helguvík. Ég fagna því að þeir séu með í þessari vegferð. (Gripið fram í.)