146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að við erum þarna að reyna að fylgja hagvexti nokkurn veginn. Ég átti um þetta viðræður við fulltrúa frá OECD fyrir viku. Eins og sumir aðrir sem hafa gefið umsögn um fjármálastefnuna sem þá var ein komin fram taldi hann að við færum kannski fullglannalega með því að elta hagvöxtinn vegna þess að útgjöld á hvern einstakling væru að hækka. Fólksfjölgun hér á landi er í kringum 1% á ári og við förum töluvert fram úr því.

Hann lýsti þeirri skoðun sinni að til langframa ættu útgjöld að vera í samræmi við fólksfjölgun. Ég sagði hins vegar að af ýmsum ástæðum hefðum við dregist aftur úr og væri eðlilegt að hér á landi væri aukningin meiri, a.m.k. til skemmri tíma, þangað til við næðum okkur upp úr kreppunni.