146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:42]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru töluverðar fréttir. Ég gekk út frá því að fjármálaáætlunin myndi standast, jafnvel eftir að hún væri samþykkt. Hér er verið að tala um töluverðar breytingar sem koma ekki fyrir í henni.

Það er vissulega jákvætt að verið sé að greiða hlutina hraðar niður. Ég að vísu veit ekki með hvaða peningum þetta var gert, hvort þeir komu úr þessum 105 milljörðum. En á genginu 115 heyrist mér þetta vera um tveggja ára vextir sem við erum að borga fyrir að fá að kaupa til baka. Mér þætti gaman ef hæstv. ráðherra gæti staðfest skilning minn á því að við séum að borga tvö ár af vöxtum af þessu láni til að geta keypt þetta til baka.

Þá er full ástæða til að spyrja: Mun eitthvað í þessu standast fyrst að strax er farið að grafa undan? Þótt það sé á jákvæðan hátt þurfum við að hafa yfirsýn yfir það hvernig muni miða áfram með fjármál ríkisins. Annars erum við að fara að ræða um og jafnvel samþykkja það sem kallast hreinlega lygi.