146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:48]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að fagna þessum tíðindum. Þetta eru heilmikil tíðindi sem við erum að heyra. Þetta lán er tekið að mig minnir 2012 og átti að greiðast upp 2022. Mjög óhagstætt lán upp á tæplega 6% vexti í endurfjármögnun, en miðað við gengið í dag, það gengi sem er verið að kaupa á, er þetta alveg ótrúlega hagstætt í sjálfu sér. Þetta er mikið fagnaðarefni og rétt að taka það fram.

Mig langaði rétt að spyrja hv. þm. Smára McCarthy: Þegar hann ræðir um gengismálin og að við eigum að setja inn einhverjar gengisspár inn í fjármálaáætlunina, hvernig þingmaðurinn sjái þetta fyrir sér. Því að þarna erum við komin út í eitthvað sem er bara ekkert hægt að eiga við í sjálfu sér. Eiga þetta þá að vera mismunandi sviðsmyndir eða hvað? Ef starfsmenn fjármálaráðuneytisins eða annarra stofnana sem vinna fyrir okkur eru komnir með gengisspár eru þeir komnir út í annan bisness í sjálfu sér, viðskipti, sem eru bara gjaldmiðlaviðskipti. Þetta er einhver leikur sem ég sé ekki fyrir mér hvernig gæti virkað til framtíðar litið í svona fimm ára spá þegar spáð er um ákveðið gengi og líka varðandi styrk íslensku krónunnar ef við hugsum út í það. Ef spáð væri veikingu krónunnar, væri þá ekki verið að tala krónuna niður eða upp eða hvernig sem þetta væri hugsað? Það eru þessar hugleiðingar sem mig langaði að spyrja hv. þingmann út í hvernig hann sjái fyrir sér, að við gætum spáð fyrir um þetta með þvílíkum hætti. Væri eitthvert gagn í því? Hvernig sæi þingmaðurinn það fyrir sér?