146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:56]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum komin á þann stað í þingstarfinu að við séum að tala um fjármálaáætlun áranna 2018–2022. Mér finnst birta yfir þessari áætlun. Það er birta yfir áætluninni sem við skulum hafa að leiðarljósi þegar við fjöllum um hana og í hversu öfundsverða stöðu við erum komin sem samfélag eftir mörg mögur ár. Það finnst mér vera stóra línan þegar ég les yfir þá fjármálaáætlun sem er lögð fram í dag. Við skulum ekki gleyma því að auðvitað höfum við mismunandi skoðanir, auðvitað höfum við mismunandi væntingar, en í öllum aðalatriðum horfum við á ótrúlega spennandi tíma fram undan.

Við ræðum fjármálaáætlun raunverulega í fyrsta sinn eftir þeirri aðferð sem við höfum sett okkur með nýjum lögum. Við samþykktum að vísu fjármálaáætlun á fyrra vori en við höfum kannski byggt hana upp frá grunni að þessu leyti. Hún er að sjálfsögðu ekki fullkomin, framsetningin er ekki fullkomin. Við munum taka nokkurn tíma í að æfa okkur meira í þeirri framsetningu. En við erum samt að tala um fjármálaáætlun við aðstæður sem eru miklu frekar þær að við erum að reyna að ráða við of hraðan vöxt, ráða við mikinn hagvöxt, við vorum með methagvöxt á síðasta ári. Við erum með aðstæður í þjóðarbúinu þar sem atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki. Fyrir nokkrum misserum vorum við að ræða hvort langtímaatvinnuleysi myndi mögulega festast í íslensku samfélagi. Við erum ekki að ræða það hér. Við ræðum að atvinnuþátttaka kvenna hefur nánast aldrei verið meiri. Þetta eru aðstæðurnar sem við erum að fjalla um næstu fjögur árin. Við ræðum fjármálaáætlun í ljósi þess að kaupmáttur hefur aukist um 9,5%, sem er náttúrlega algjörlega ótrúlegt. Vonandi höldum við þeim mikla kaupmætti í veskjunum okkar. Við ræðum fjármálaáætlun sem er endurspeglun á þeirri miklu viðspyrnu sem samfélagið hefur tekið eftir hin mögru ár sem ég nefndi áðan.

Við erum líka í miklum vanda við að ræða fjármálaáætlun næstu ára, en hann er ánægjulegur að því leyti að við erum að kljást við jákvæða þætti sem eru í þessu tilfelli spenna, þensla í samfélaginu, en ekki samdráttur og svartsýni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við munum það þegar við ræðum þetta mikilvæga þingmál.

Við ræðum fjármálaáætlun þar sem glímt er við þau stóru verkefni að halda ríkissjóði með meiri afgangi til að slá á þensluna á sama tíma og menn einsetja sér að lækka skuldirnar til að ná niður vaxtakostnaði. Það er meginþema þessarar fjármálaáætlunar og þau tíðindi sem hæstv. fjármálaráðherra flutti úr þessum stól, um að við værum að ná hraðar fram í því en við ráðgerðum, fyrir nokkrum dögum síðan eru mjög gleðileg og ég fagna þeim. Í því ljósi vil ég ræða fjármálaáætlun.

Við ræðum fjármálaáætlun sem staðfestir það sem við tókum þátt í í samræðum í samfélaginu í haust í kosningabaráttunni, að við ætluðum að forgangsraða fjármunum til velferðarmála og heilbrigðismála. Við erum að festa það í sessi í þessari fjármálaáætlun. Við vorum með einstakar aðstæður í þinginu í desember við að setja fjárlög og það dundi á okkur sem stóðum í þeirri vinnu gagnrýni fyrir að við værum að pumpa of miklum fjármunum í einstaka málaflokka. En við erum samt sem áður að festa í sessi þær ráðstafanir sem við gerðum í þinginu í desember sl. Við erum t.d. með 20 millj. kr. meira í samgöngumál en við höfðum fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Já, ég skal alveg viðurkenna það að ég er skítsvekktur yfir því að við séum ekki jafnvel með meira fjármagn til samgöngumála. Ég skal alveg viðurkenna það. En þetta er það sem við höfum úr að spila og með það skulum við vinna. Við ræðum ekki mikið í fjármálaáætluninni um þróun eigna ríkisins, það finnst mér að við ættum að muna eftir að taka umræðu um þegar við ræðum áætlunina, hvernig við getum beitt eignasafni okkar til þess að sækja hraðar fram og hvernig við nýtum eignir ríkisins og hvaða eignir við getum lagt frá okkur til þess að sækja hraðar áfram, eins og t.d. í vegamálum.

Það eru líka stór tíðindi í fjármálaáætluninni sem ég vil vekja sérstaka athygli á. Þegar við komum fram á seinni hluta hennar, þegar við sjáum mögulega fyrir endann á því að byggja hið langþráða sjúkrahús, sem við ætlum sannarlega að standa við bakið á og byggja í þessari áætlun, á sama tíma og við erum að ná þeim árangri að hafa náð vaxtakostnaði ríkisins verulega niður, þá blasa við okkur að öllu óbreyttu — auðvitað er ekkert óbreytanlegt í þessum heimi, hann er hverfull og við skulum ekki gleyma því — gríðarlega mikil tækifæri, mikið svigrúm ríkissjóðs, sem sumir kalla, sem í mínum huga á að skapa forsendur til þess að við getum farið yfir skattkerfið á nýjan leik og undirbúið það undir framtíðina og hvernig við ætlum að nota það sem virkara hagstjórnartæki og kjarajöfnunartæki en við höfum mögulega tækifæri á að gera við þessar aðstæður.

Virðulegi forseti. Mér finnst tónninn í umræðu um fjármálaáætlun sem við munum ræða árlega — þetta er bara áætlun sem við ræðum á þessu vori, það kemur önnur áætlun á næsta vori — stóru tíðindin eru þau að við erum farin að horfa til lengri tíma og við erum farin að takast á við hlutina sem við ætlum að gera í samfélagi okkar, undirbyggja þá og búa okkur undir þá, t.d. kaup á þremur björgunarþyrlum sem mér finnst vera merkilegt og mikilvægt, að við séum að ná þeim árangri að geta séð fram á að fjármagna það.

Mig langar í þessari umræðu að nefna það að í meðferð á þingmálinu stöndum við á nokkrum tímamótum þar sem við munum núna í fyrsta sinni vísa fjármálaáætlun til allra nefnda þingsins til faglegrar umfjöllunar. Allar nefndir þingsins munu verða fjárlaganefndir hér að loknu páskastoppi. Það segi ég að eru líka merkileg tímamót í vinnubrögðum Alþingis og gerum við þar af leiðandi það fjárstjórnarvald sem Alþingi er falið miklu sterkara en það hefur verið hingað til. Við höfum í umræðum um fjármálastefnuna og oft í umræðum um hin nýju lög um opinber fjármál talað um að Alþingi hafi lagt frá sér eitthvert vald, að Alþingi hafi núna minni áhrif á hvernig fjármálum ríkisins er fyrir komið. Ég vil að við tökum þessa breytingu með það að leiðarljósi að við erum að efla fjárstjórnarvald Alþingis með því hvernig við beitum Alþingi næstu daga til þess að ræða hina mikilvægu fjármálaáætlun.

Við skulum ekki týna okkur í umræðunni um það að þingmenn átti sig ekki á hvernig þeir hafa áhrif á útgjöld með tillöguflutningi, því að það er að sjálfsögðu farvegur sem við þurfum að vinna og skýra, en þetta er hið merkilega vald sem ekki verður frá Alþingi tekið. Það getur enginn tekið með almennri löggjöf stjórnarskrárvarið vald Alþingis til fjármálastjórnunar á Íslandi. Það vil ég undirstrika í upphafi umræðunnar og að við höfum þá öll í huga hvernig við ætlum að beita þinginu til þess að taka núna einstaka málaflokka, fara yfir það með ráðherrunum hvernig þeir ætla að ná þeim markmiðum sem þeir lýsa í fjármálaáætluninni og til hvaða aðgerða þeir ætli að grípa. Síðan hefur þingið síðasta orðið um innihald þessarar áætlunar. Við sem alþingismenn erum komin með þetta í hendurnar, þetta er tillaga ríkisstjórnarinnar. Það er síðan okkar að ræða hana og koma með breytingartillögur og leggja þær áherslur sem þingið nær saman um að gera. Í því ljósi vil ég undirstrika að hvort sem það er fjárlaganefnd eða aðrar fagnefndir þingsins hafa þær mjög mikið að segja um það hvernig við mótum framtíð okkar og hvernig við undirbyggjum fjármálaáætlunina og afgreiðslu þingsins á henni.

Við höfum í nýjum lögum höfðað mjög til aukinnar ábyrgðar ráðherra. Ráðherrarnir setja nú fram markmið sín og það er okkar að fylgja þeim eftir. Það er líka okkar sem Alþingis að fylgja því eftir hvernig farið er eftir þeim markmiðum og fjárlögum. Það eru margar áskoranir og hv. þingmenn hafa í þessari umræðu þegar ávarpað ýmsa veikleika sem eru í gildandi fjárlögum þessa árs, sem við viðurkennum, en við verðum þá líka að vera minnug þess að það er okkar þingsins að veita það aðhald og grípa inn í þegar þurfa þykir. Ég sé líka fyrir mér sem framhald á hinu sterka fjárstjórnarvaldi Alþingis að þær ársskýrslur sem fjallað er um í lögum um opinber fjármál verði tilefni fyrir fagnefndir á hverjum tíma til að taka til umræðu og rýni og láta sig þar varða á fagsviði sínu þá stefnumörkun sem hefur verið undirbyggð við gerð fjármálaáætlunar hverju sinni.