146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ég megi skilja hann svo að hann sé ekki alveg sannfærður um að þetta sé rétta leiðin og gæti jafnvel hugsað sér í fjárlaganefndinni sem hann veitir forystu að koma með einhverjar aðrar tillögur. Telur hv. þingmaður að það sé jafn mikilvægt í hagstjórnarlegu tilliti að taka t.d. peninga, eins og hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, leggur til, að selja flugstöðina og nýta þá fjármuni í vegi, brýr, hafnir og innanlandsflugvöll, eins og sá hv. þingmaður orðaði það í grein í dag í Morgunblaðinu? Telur hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, að þetta tvennt, að nota eignasölu til að fara í framkvæmdir eða breytingar á skattkerfinu til að fara í framkvæmdir, hafi sömu jákvæðu hagstjórnarlegu áhrifin?