146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:14]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði að hann skildi ekki alveg hvar ég sæi þetta svigrúm. Ég nefndi það svigrúm sem ég sé fyrir mér — og ég sló heilmikla varnagla í því að allt væri hverfult í heiminum — að þegar við komum út úr þeim tíma að vera með framlög til að byggja sjúkrahús og komumst lengra í að greiða niður skuldir og lækka vaxtakostnaðinn þá sé ég þar mikið svigrúm. Það var það sem ég átti við í ræðu minni. Ég vona að hv. þingmaður átti sig á hvert ég var að fara í þeim efnum.

Varðandi seinni hluta spurningar hans þá hefur verið rætt í kynningum á þingmálinu að við stefnum í skilvirkari fjárstýringu ríkissjóðs. Það var líka talað um lækkun innstæðu í Seðlabanka Íslands. Ég gef mér að sú greiðsla sem nú er innt af hendi úr innstæðunni í Seðlabanka til að greiða niður skuldir sé hluti af þeirri fjárstýringu.