146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:17]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að vera sammála hv. þingmanni að einhverju leyti. Þau eru mörg ef-in. En ég vil ekki að við tölum um það svigrúm sem ég nefndi og hafði alla fyrirvara um öðruvísi en að við gefum okkur að spár gangi eftir og þar með standi það þannig fyrir okkur.

Ég hef áður sagt í umræðum um bæði fjárlög og fjármálastefnuna að auðvitað sígur í hinn glataði áratugur þar sem við höfðum ekki getu til að ráðast í nauðsynleg útgjöld til að halda ýmsu við í samfélagi okkar. Við munum verða í talsvert langan tíma að vinna okkur út úr þeirri stöðu. En það gerum við ekki nema með ábyrgri fjármálastjórn og öflugri markmiðasetningu um hvernig við nýtum þá fjármuni sem við höfum úr að spila hverju sinni og nýtum þá skynsamlega, fyrst og fremst til að greiða niður skuldir, til að glata alla vega ekki þeim miklu fjármunum sem við verjum í dag til fjármagnskostnaðar, og spörum þar til að geta komist áfram í úrbótum sem við erum örugglega öll sammála um að vinna að.