146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:20]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir þessar spurningar og segi líka að við í fjárlaganefnd höfum velt fyrir okkur þeim ábendingum sem hún færir hér fram. Ég þekki vel þau sjónarmið sem hún reifar. Við ræddum einmitt — ef ég má með leyfi fundarstjóra segja frá því, því að ekki má með beinum hætti vitna í það sem fram fer á nefndarfundum — ég nefndi þetta líka í ræðu minni áðan, að við þurfum að æfa okkur betur eða skerpa betur á framsetningu á fjármálaáætlun svo að við getum lesið út hluti eins og hv. þingmaður nefnir, svo að við sjáum það útgjaldarými sem málaflokkurinn fær á næstu árum. Við nefnum að kaupa eigi þrjár nýjar þyrlur sem kosta að okkur er sagt 14 milljarða kr., við ættum að geta lesið það út úr töflunum með einföldum hætti. Ég er alveg á sama stað og hv. þingmaður með lesturinn þegar ég rýni tölurnar. En þarna á bak við eru líka margs konar aðrar breytur sem er ekki hægt að rekja hér í stuttu máli.

Hitt vil ég þá segja að auðvitað er fjármálaáætlunin plagg sem rúnnar af ákveðnar stærðir. Hún er ekki fjárlög. Það gerist margt frá því að við samþykkjum fjármálaáætlunina um vor og þangað til við fáum fjárlagafrumvarp að hausti. Það verður hin endanlega aðgerð til stuðnings þeim markmiðum sem við setjum fram í fjármálaáætluninni.

Hv. þingmaður spyr hvort ásættanlegt sé að flest ráðuneyti nái ekki að byggja upp þá varasjóði sem þeim er ætlað að byggja upp. Þá segi ég aftur: Það á margt eftir að gerast enn, frá fjármálaáætlun til haustsins þegar við ræðum fjárlögin. Við skulum sjá betur þar hvernig við sjáum það braggast hjá ráðuneytunum, hverju og einu fyrir sig. En þetta er einn af þeim þáttum sem fjárlaganefndin verður að láta sig varða og veita verðugt aðhald í þeim efnum.