146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:22]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það á margt að breytast þegar kemur að fjárlögum. Þegar þetta verður samþykkt verðum við bundin af þessum fjárhæðum, ef ég skil rétt. Ekki er ætlunin að auka við tekjur eða stækka rammana sem slíka. Það kemur beinlínis fram í þingsályktunartillögunni.

Mig langar að spyrja um annað sem ég veit að okkur báðum er frekar hugleikið og það eru samgöngumálin. Þau eru 5 milljarðar á ári. Þetta er dropi í hafið. Þetta er tæplega það sem við bættum við fyrir jólin. Ég hlýt að skilja það sem svo að hér sé verið að fara í annars konar framkvæmdir en þessar. Eignasala er ekki í hendi.

Svo langar mig að spyrja þingmanninn út í framhaldsskólana. Hann átti þátt í síðustu ríkisstjórn, þ.e. var hluti af þeim meiri hluta. Nú ber svo við að það eru 1.700 milljónir sem framhaldsskólinn kemur til með að skerðast á tímabilinu. Telur hann að það sé ásættanlegt og að verið sé að framfylgja því sem var samþykkt þegar framhaldsskólinn var styttur?