146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:46]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta yfirferð hennar um þessi mál, sérstaklega þar sem hv. þingmaður fór yfir málin út frá stefnu síns flokks. Hún kom sérstaklega inn á annars vegar heilbrigðismál og hins vegar umhverfismál. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í stöðuna í þeim efnum.

Hv. þingmaður var töluvert ánægður með þá viðbót sem kæmi inn í heilbrigðismálin samkvæmt fjármálaáætluninni. Það er rosalega auðvelt að leika sér með tölur. Ég þyrfti nú að hafa lengri tíma en ég get haft hér til að fara yfir það sem mér finnst bara vera fúsk í framsetningu þessarar áætlunar þar sem stofnkostnaður er talinn með sem rekstrargjöld og uppsafnaðar viðbætur eru stundum lagðar saman og stundum ekki. En látum það vera.

Hv. þm. Oddný Harðardóttir kom inn á það í umræðunni fyrr í dag að ef halda ætti í við öldrun þjóðarinnar þyrfti að auka í þjónustu við sjúkrahús um 1,7 til 2%. Samkvæmt þessari fjármálaáætlun er aukningin 0,4%. Það er vissulega aukning um 0,4% en þegar maður horfir á hlutfallslegan fjölda þeirra sem þurfa að nýta sér þjónustuna er það alls engin aukning heldur einmitt þvert á móti.

338 milljónir króna til viðbótar við þjónustu við sjúkrahús. Finnst hv. þingmanni það nægjanlegt? Er það í takt við stefnu flokks (Forseti hringir.) hv. þingmanns Bjartrar framtíðar?