146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:50]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið þó að hún hafi nú ekki svarað þeirri spurningu minni hvort henni fyndist þetta nægjanlegt. En það er ágætt að hv. þingmaður kom inn á lýðheilsumál. Við skulum þá skoða þau í fjármálaáætluninni.

Á árinu 2017 fara 8,1 milljarður í þau. Hver er viðbótin þar sem hv. þingmaður talar um að sé nauðsynleg? Næsta árið verða þetta 8,3 milljarðar og svo hækkar það örlítið á milli ára og endar í 8,6 milljörðum króna. Viðbótin í lýðheilsumál sem hv. þingmaður talar um að leggja hér gríðarlega áherslu á er nú ekki neitt til að hrópa húrra fyrir. Látum þá vera hvort samþykkt verði að setja áfengissölu í verslanir þannig að það þurfi nauðsynlega á lýðheilsu- og forvarnapeningum að halda, sem hv. þingmaður kom inn á. Það er allt önnur umræða.

Þá langar mig í seinna andsvari mínu að koma inn á umhverfismálin sem hv. þingmaður kom líka inn á. Það er vissulega rétt að upphæðin í umhverfismál hækkar um milljarð milli ára en síðan lækkar hún aftur strax á næsta ári og svo aftur á því næsta og hækkar svo lítillega. Hv. ríkisstjórn hefur talað mikið um að nú eigi að slá einhvers konar met í umhverfismálum. Hún hefur talað um gildi þess að uppfylla Parísarsamkomulagið, lagt fram áætlun um orkuskipti í samgöngum. Það er helst að skilja á hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum þessarar ríkisstjórnar að umhverfismál eigi að vera yfir og allt um kring.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hún að Parísarsamkomulagið verði uppfyllt með þessum fjárhæðum sem hækka um 1 milljarð en lækka svo lítillega strax aftur? Telur hv. þingmaður að við náum markmiðum um orkuskipti í samgöngum (Forseti hringir.) þegar árið 2025 með ekki hærri fjármunum en hér um ræðir?