146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:52]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er verulega ánægð með að hv. þingmaður spyrji um lýðheilsumál því að það er sérstakt áhugamál mitt, lýðheilsa og forvarnir. Ég held að forvarnir séu stórt efnahagsmál, sérstaklega hvað varðar eldri borgara. Á síðasta kjörtímabili var samin þessi fína lýðheilsustefna á vegum ríkisins sem ég fagnaði líka mjög. Fyrsta markmið hennar er að öll sveitarfélög marki sér lýðheilsustefnu. Ég held að það sé stóra verkefnið, að ýta sveitarfélögunum út í að marka sér lýðheilsustefnu.

Hvað varðar fjármunina frá ríkinu: Já, ég tel að það sé nóg vegna þess að það er líka verkefni sveitarfélaga að fara í þessi lýðheilsuverkefni og auka samvinnu við heilsugæsluna í hverju sveitarfélagi fyrir sig, varðandi hjúkrunarheimilin, hjúkrunarþjónustuna, velferðarþjónustuna almennt. Lýðheilsan er nánast þvert yfir skipulag, skipulag fyrir hvert og eitt sveitarfélag. Stóra verkefnið í lýðheilsumálum finnst mér vera að hvert sveitarfélag móti sér stefnu í þeim málum.

Hvað varðar umhverfismálin: Það er rétt, við erum að auka í og síðan draga úr aukningunni. Það sem er mikilvægt í þessari umræðu er að við erum að leggja á skatta. Þeir sem menga eiga að greiða.

Síðasta spurningin var um hvort við næðum þessum markmiðum. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn. Þetta er stefna, þetta er stóra myndin, áætlun til að fylgja eftir stefnunni. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn á að við getum að minnsta kosti tekið stór skref í þessa átt.