146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir að hafa lesið í gegnum áætlunina og skoðað spá um hagvöxt og verðbólgu og borið saman útgjöld til ýmissa málefnasviða árið 2017 við síðasta árið samkvæmt fjármálaáætlun, árið 2022, á ég erfitt með að sjá hver raunveruleg aukning til ýmissa málefnasviða er. Á sumum málefnasviðum er hrein og klár lækkun, krónutölulækkun á raunvirði frá 2017–2022. Vissulega er rétt að það er einhver hækkun til heilbrigðismála en miðað við t.d. stefnu og kosningaáherslur Bjartrar framtíðar fyrir kosningar hefði ég áhuga á að vita hvort þessi áætlun skilar þeim vonum sem Björt framtíð vakti meðal kjósenda með þeirri miklu áherslu á uppbyggingu í heilbrigðismálum, hvar hún ætti að enda. Uppfyllir þessi áætlun í rauninni kosningaáherslur Bjartrar framtíðar? Það er það sem ég hefði áhuga á að vita.