146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir orð hennar. Það hefur þá komið fram að ráðherrann þurfti að bregða sér frá um stutta stund. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þá sitjandi forseti, hefur staðfest það. Ég verð samt að segja að hér erum við með umsamda umræðu, þetta er ekki hefðbundin umræða heldur umsamin sem þýðir að þeir þingmenn sem hér eru að tala tæma ræður sínar, þetta er ekki með því hefðbundna sniði að þingmenn geti komið aftur á mælendaskrá. Í ljósi þess að við erum að semja við forseta um tiltekið fyrirkomulag á umræðunni er óásættanlegt annað en að við gerum hlé þar til ráðherrann er kominn í hús vegna þess hversu mikilvægt það er að við getum átt í þessum orðaskiptum. Ég bið hæstv. forseta að gera nú stutt hlé á fundinum. Mér skilst að þetta snúist um korter eða ekki mjög langan tíma. (Forseti hringir.) Ég held að það sé langeðlilegast að verða við þeirri ósk.