146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:14]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Enn einu sinni er komin upp sú staða að við tölum út í loftið án þess að fá nokkur viðbrögð frá hæstv. forseta. Það er ekki eins og við séum að fara fram á að hæstv. fjármálaráðherra sé flogið til landsins frá Kamtsjatka, að við ætlum að fresta fundi fram á nótt eða halda salnum í málæði fram eftir viku. Við erum með eðlilega og sanngjarna kröfu í anda samkomulags sem gert var við stjórnarandstöðuna þar sem hún féllst, með mikilli lipurð og liðleika, á að ganga á rétt sinn til að ræða um málin. Ég er t.d. ekki á mælendaskrá um þetta, öllum væntanlega til sárrar gremju, en partur af því samkomulagi er að hæstv. ráðherra sitji í salnum.

Vel getur komið upp að lögmæt forföll verði en þá sýnir maður einfaldlega liðlegheit. (Forseti hringir.) Ætlum við ekki að reyna að hafa þennan vinnustað, þar sem alltaf er verið að tala um ný vinnubrögð og minna fúsk, þannig að hægt sé að sýna smáliðlegheit?