146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Hún nefndi bæði menntamál og NPA. Mig langar að spyrja hana aðeins út í það, í fyrsta lagi NPA og þann ágreining sem sveitarfélögin hafa gert. Það liggur a.m.k. fyrir að menn hafa ekki sömu skoðun á því hvað hlutirnir kosta og hvað þarf til. Það var þannig að ríkið greiddi 20%, það er komið upp í 25%, en sveitarfélögin segja að það hlutfall þurfi að vera í kringum 30%. Samkvæmt frumvarpinu kostar þetta 1.336 milljónir. Það þýðir að ef við komum ekki til móts við sveitarfélögin munar í kringum 270 millj. kr. Við fengum vissulega óundirritað plagg í hendur þar sem m.a. var talað um að fara ætti ofan í þau gráu svæði sem eru á milli ríkis og sveitarfélaga. Mér finnst það viðhorf sem birtist hér í fjármálaáætluninni kannski vera enn einn pósturinn sem er viðhaldið sem gráum. Það er ekki leyst úr þessu.

Það stendur á bls. 317, og vekur ákveðna athygli, að það sé fyrirséð að með bættri heilbrigðisþjónustu muni fjölga í hópi fatlaðs fólks og að í samræmi við hugmyndafræðina um NPA, þ.e. einstaklingsbundna þjónustu, muni þörf á þjónustu aukast. Þá veltir maður enn frekar fyrir sér hvort þetta nái endum saman ef við ætlum að lögfesta aðstoðina. Það hefur verið mikil krafa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að fjármunir verði að fylgja þeirri innleiðingu.