146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er kannski það sem við verðum að horfast í augu við, ekki er gert ráð fyrir þessum fjármunum. Ef fólki sem á rétt á slíkri aðstoð fjölgar stækkar þetta bil væntanlega. Mér þykir það mikið áhyggjuefni og þess vegna spyr ég. Það er alveg rétt að við getum spurt fagráðherrann á morgun, en textinn er a.m.k. ekki skýrari en svo að hann gefur til kynna að ekki sé ráð fyrir þessu gert.

Hv. þingmaður kom líka inn á framhaldsskólann, skólamálin og háskólamálin. Við höfum aðeins rætt þau í dag. Ég verð að segja að það olli mér miklum vonbrigðum að sjá að uppsafnaður niðurskurður í framhaldsskólunum er 1.700 millj. kr. Þingmaðurinn kom inn á að það ætti að verða til svigrúm innan skólanna. Miðað við þessa áætlun fæ ég ekki séð hvernig það eigi að myndast. Aurarnir áttu að verða eftir, það átti ekki að skerða þá fjármuni sem skólarnir fengu miðað við fjárlögin eins og þetta var rætt þegar námið var stytt. Við vitum og höfum heyrt af framhaldsskólum sem eru ítrekað í mjög miklum vandræðum. Bæði er uppsöfnuð þörf á tækjakaupum og öðru slíku og þeir fjármunir sem hafa verið settir í það, t.d. það sem fjárlaganefnd setti fyrir jólin, voru bara upp í nös á ketti. Það var bara til að seðja sárasta hungrið hjá sumum. Við þurfum að kalla eftir því í fjárlaganefnd hvernig því fé var úthlutað. Við eigum eftir að fá að vita það.

Ég hef miklar áhyggjur af framhaldsskólunum, ekki síður en háskólunum sem segjast þurfa að skera niður námsbrautir. (Forseti hringir.) En ég spyr um loforðið vegna styttingarinnar, að þar sé svona mikill niðurskurður.