146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:01]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Mig langar áður en ég kem að raunaukningunni eða fyrri spurningunni að benda á — af því að mér finnst skautað hratt yfir það núna, að fjárfesting í nýjum spítala sem loksins er að verða veruleika sé ekki alvöru því að það sé búið að tala svo lengi um hann og/eða þá að af því að búið er að tala svo lengi um hann sé sú fjárfesting ekki alvörufjárfesting í heilbrigðiskerfinu — að meðan fjármununum er varið í það er þeim ekki varið í eitthvað annað. Þetta er sett í lykilforgang núna því að það má bara ekki bíða lengur.

En um spurninguna hver raunaukningin sé þá er á liðnum Sjúkrahúsþjónusta spítalinn tekinn og þegar hann er dreginn frá telst mér til, samkvæmt sérfræðingum í ráðuneytinu, að raunaukningin þess utan sé 15%.

Síðan hvað varðar seinni spurninguna, hvernig aukning um 3–4% … (Gripið fram í.) Já, fyrirgefðu. En þetta eru rauntölur, hagvaxtartölur. Þetta er aukning. Það liggur fyrir. Það er verið að leggja í þetta. Það má alltaf gera meira. Eins og ég talaði um áðan held ég að í ljósi þeirrar áherslu sem lögð er á heilbrigðismálin og velferðarmálin í ríkisfjármálaáætlun séu líkur á að menn vilji skoða menntamálin og ræða hvernig megi vinna sem best úr þeim málum. Ég hlakka til þeirrar umræðu. Hún mun vera þörf.