146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar er svik við kjósendur og almenning í landinu. Hún er svik við ungt fólk jafnt sem aldraða. Áætlunin er í engu samræmi við kosningaloforð. Viðreisn og Björt framtíð sem vildu mála sig upp þegar þeim fannst við eiga sem jafnaðarmenn í kosningabaráttunni hafa fallist á allar áherslur Sjálfstæðismanna. Hvar er uppbygginguna sem lofað var að finna í þessari áætlun? Hvar er hina skynsamlegu sveiflujöfnun að finna? Hvar er að finna aðgerðir sem stuðla eiga að efnahagslegum stöðugleika? Hvar eru aðgerðirnar sem eiga að stuðla að félagslegum stöðugleika og friði á vinnumarkaði? Svarið við öllum spurningunum er: Hvergi.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar skilar þar auðu enda stóð aldrei annað til á þeim bænum. Skattar eru meira að segja lækkaðir á tíma hagvaxtar og þenslu. Kannast einhver við það? Virðisaukaskattur var lækkaður á árinu 2007 úr 14% í 7%. Það voru hagstjórnarmistök í bullandi góðæri. Nú á að leika svipaðan leik með lækkun á almenna virðisaukaskattsþrepinu frá 1. janúar 2009.

Lagðar eru til auknar álögur á ferðamenn. Það er mikilvægt til að hægt sé að mæta kostnaði við komu þeirra og styrkja innviðauppbygginguna hér á landi eins og hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum er tíðrætt um. En sveitarfélögin mega ekki gleymast í umræðunni um innviðina. Þau hafa ekki notið góðs af auknum straumi ferðamanna samanborið við ríkissjóð í gegnum virðisaukaskattskerfið. Tryggja þarf að sveitarfélögin njóti góðs af hækkun virðisaukaskattsins. Stærsti útgjaldaliður sveitarfélaga er rekstur grunn- og leikskóla. Þar sjáum við fram á grafalvarlegan skort á kennurum; nú þegar ríkisstjórn eykur loks tekjur sínar af ferðamönnum og hefur enn meira svigrúm til að bregðast við heldur hún áfram að velta brýnum fjárhagsvanda fólks yfir á sveitarfélögin. Það eru kaldar kveðjur nýrrar ríkisstjórnar.

Þegar fjármálaáætlunin var kynnt voru stóru fyrirsagnirnar: 20% aukning til heilbrigðiskerfisins. Það gleymdist að segja frá því í leiðinni að stærsti hluti þeirrar aukningar er bygging nýs Landspítala. Ég fagna því auðvitað að byggja eigi nýjan spítala. En hverjum hefði dottið það í hug fyrir kosningar að samhliða loforði um byggingu spítalans ætti að skera niður þjónustu á sjúkrahúsunum á Akureyri og Landspítalanum? Sú viðbót sem ætluð er til spítalanna nægir ekki einu sinni til að mæta fjölgun sjúklinga, hvað þá að hún dugi til að vinna á biðlistum, nauðsynlegum tækjakaupum eða viðhaldi. Það þýðir niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Var því lofað fyrir kosningar?

Nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu verður tekið í notkun 1. maí. Breytingin felur í sér að sett er tæplega 70 þús. kr. þak á ári á greiðsluþátttöku sjúklinga fyrir þjónustu heilsugæslu, sjúkrahúsa, sérgreinalækna, myndgreina, rannsókna og þjálfunar. Breytingin er að mestu fjármögnuð með tilfærslu á kostnað þeirra sem þurfa mikla heilbrigðisþjónustu til þeirra sem þurfa minni þjónustu. Það þýðir að fyrir allflesta sem þurfa tilfallandi þjónustu munu gjöldin hækka umtalsvert áður en þaki er náð.

Við samþykkt laganna gaf þáverandi heilbrigðisráðherra sem nú situr í hæstv. ríkisstjórn sem menntamálaráðherra loforð um að þakið fyrir almenna sjúklinga yrði lækkað í 50 þús. kr. og fjármagnað á fjárlögum fyrir árið 2017. Það er svikið.

Samfylkingin vill að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og talaði fyrir því fyrir kosningar að greiðsluþátttaka sjúklinga yrði lækkuð í áföngum. Þingsályktunartillaga Samfylkingarinnar um fyrsta áfanga er nú í meðferð velferðarnefndar og gengur út á að heilsugæsla verði gjaldfrjáls, læknisþjónustan utan heilsugæslu fari ekki upp fyrir 35 þús. kr. á ári og greiðsluþátttaka aldraðra og öryrkja í tannlækningum verði lækkuð. Nú á að jafna greiðslubyrðina með því að færa þungann á þá sem sjaldan fara til læknis af langveikum sem hafa of lengi borið of þungar byrðar. Það að almennir sjúklingar greiði hærri gjöld getur leitt til þess að enn fleiri seinki því að fara til læknis með tilheyrandi kostnaði síðar meir. Það er enn dýrara fyrir samfélagið ef sjúklingar draga að leita sér lækninga og annarrar heilbrigðisþjónustu. Þeir sem hafa næg fjárráð þurfa ekki að hugsa sig um tvisvar. Það þurfa tekjulágir hins vegar að gera.

Byggja á fimm ný hjúkrunarheimili á tímabilinu sem skila munu 261 nýju hjúkrunarrými. Þessi áform voru í áætlun fyrri ríkisstjórnar og duga skammt. Núverandi ríkisstjórn skýtur vanda tengdum öldrun þjóðarinnar til lausnar fyrir þarnæstu ríkisstjórn og skilar engu til lausnar þess vanda sem fyrirsjáanlegur er á kjörtímabilinu. Fjölgunin sem áformuð er nemur einungis helmingi af áætlaðri viðbótarþörf fyrir ný hjúkrunarrými fram til ársins 2020. Þessi fjölgun er því langt undir áætlaðri þörf á því tímabili sem áætlunin nær til. Auk þess er ekki að sjá þess merki í áætluninni að gera þurfi ráð fyrir viðbótarfjármagni til reksturs hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu á tímabilinu þrátt fyrir viðvarandi rekstrarvanda margra stofnana á þessu sviði. Ef fram fer sem horfir segja aðilar sig frá rekstri heimilanna. Skila honum í fang ríkisins vegna vanfjármögnunar. Þær aðgerðir eru nú ræddar í sveitarfélögum víðsvegar um land.

Til að mæta húsnæðisvanda sýnist mér að efna eigi loforð sem fyrri ríkisstjórn gaf við kjarasamninga en svo er ekki að sjá á tölunum í áætluninni að meira eigi að gera. Húsnæðisstuðningur lækkar strax á árinu 2019 og lækkar út tímabilið. Dregið er úr húsnæðisstuðningi í vaxtabótakerfinu og viðmiðunarfjárhæðum þar haldið föstum allt tímabilið sem þýðir að fækka mun í hópi þeirra sem fá vaxtabætur og draga enn frekar úr jöfnunarhlutverki kerfisins. Þetta kemur verst við fólk með lágar og meðaltekjur. Húsnæðisbótakerfið virðist eiga að veikja líka sem er afar slæmt fyrir leigjendur en í þeim hópi er helst að finna fólk, fullorðna og börn, sem líklegast er til að búa við efnislegan skort. Ekki batnar sú mynd þegar útgjöld til barnabóta er skoðuð. Barnabætur halda áfram að dragast saman að raungildi líkt og undanfarin ár. Fjölskyldum sem fá barnabætur fækkaði um tæplega 12 þúsund milli áranna 2013 og 2016 og mun samkvæmt fjármálaáætlun halda áfram að fækka á næstu árum. Útgjöld til barnabóta hafa dregist saman að raungildi undanfarin fjögur ár og ekki annað að sjá en að draga eigi enn frekar úr stuðningi við barnafjölskyldur.

Barneignum hefur fækkað á síðustu árum. Þessi staða, samhliða hraðri öldrun þjóðarinnar, hefur mikil áhrif á aldurssamsetninguna til framtíðar og skynsamleg langtímasýn í efnahagsmálum fæli í sér að nýta þau hagstjórnartæki sem geta haft jákvæð áhrif til framtíðar, svo sem hærri barnabætur sem fleiri fjölskyldur njóta, lengra fæðingarorlof og húsnæðiskerfi sem þjónar ungu fólki. Ekkert af þessu er að finna í fjármálastefnu eða áætlun ríkisstjórnarinnar. Þvert á móti eru kerfin sem gagnast best ungum barnafjölskyldum veikt.

Sömu sögu er að segja um menntakerfið. Samkvæmt mati háskólarektors er ekkert viðbótarframlag til reksturs háskóla fyrr en 2020 en sú viðbót mun ekki duga til að háskólastigið nái meðaltalsfjármögnun OECD.

Fjárhagslegan ávinning sem kemur fram í framhaldsskólakerfinu vegna styttingar námstímans á ekki að nýta til að bæta þjónustu við nemendur í framhaldsskóla með fjölbreyttara námsframboði, stoðþjónustu eða betra aðgengi að námi um allt land. Þessu var hins vegar lofað en er nú svikið.

Hækka á frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega úr 25 þús. kr. á mánuði í 100 þús. kr. í áföngum á árunum 2018–2022. Hækkun frítekjumarks á atvinnutekjur nýtist eingöngu þeim lífeyrisþegum sem stunda atvinnu og hafa tekjur umfram 25 þús. kr. en það eru aðeins um 13% ellilífeyrisþega sem hafa yfirleitt atvinnutekjur. Samkvæmt áætluninni á að gera breytingar á lögum um örorkulífeyri almannatrygginga. Ekki er þó að sjá að gera eigi þær breytingar fyrr en á árunum 2019 og 2020 ef marka má viðbótarfjármagn sem áætlað er.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á starfsgetumat í stað örorkumats. Við undirbúning sérstakrar umræðu fyrr á þessu ári um kjör öryrkja kynnti ég mér tvær skýrslur um rannsóknir á afleiðingum starfsgetumats í Bretlandi. Önnur bar yfirskriftina: Ekki gera illt verra. Hin bar yfirskriftina: Hæfur til að starfa eða hæfur til að vera atvinnulaus? Báðar gefa rannsóknirnar afgerandi niðurstöður um slæm áhrif starfsgetumats á þá sem eru með skerta starfsgetu vegna geðrænna kvilla og langvarandi veikinda.

Hæstv. forsætisráðherra sagði kátur á dögunum að þegar ríkisstjórnin væri búin að lækka virðisaukaskattinn í 22,5% 1. janúar 2019 væri almenna þrepið hér orðið það lægsta á Norðurlöndunum. En áður en við segjum jibbí og húrra við þessu skulum við fá svör við því hvort þjónustustig velferðarþjónustunnar verður þá líka hér það lægsta á Norðurlöndunum. Nær væri að stefna að því að ná þeim góða félagslega jöfnuði sem einkennir Norðurlöndin, sem þar er greitt fyrir með stigvaxandi tekjuskatti og öflugu virðisaukaskattskerfi. Norðurlöndin eru einu samfélögin sem staðist hafa ágang frjálshyggjunnar, enda hafa jafnaðarmenn þar oftast verið við stjórnvölinn og hægri menn ekki gert breytingar á skattkerfi eða velferð þá sjaldan þeir hafa náð völdum. Við ættum að stefna þangað. Í átt að auknum jöfnuði og réttlæti. Fjármálastefna og fjármálaáætlun ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar fer með íslenskt samfélag í þveröfuga átt og svíkur fólkið í landinu sem bjóst við öðru eftir fagurgala í aðdraganda kosninga.