146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það eru vissulega útskýringar á ýmsum breytingum þarna og þessi er vel þegin. Vera má að útskýringar séu á ýmsum öðrum tölum sem koma kannski betur fram í fjárlögunum þar sem við sjáum betur skiptinguna. Þetta er á málefnasviðsyfirliti svo erfitt er að sjá það flokkað hvar hvað kemur inn og af hverju.

Skatttekjur ríkisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu lækka 2019–2022. Það er það sem ég vísa til með skattalækkun á tímabilinu.

Á síðasta kjörtímabili var reynt að ná sátt um stjórnarskrána. Ég held að það sé ekkert einfaldara mál í sáttameðferð en kvótakerfið. Ég er ekki bjartsýnn en það væri æðislegt ef það næðist. Það töluðu allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn á þeim nótum að gera ætti góðar breytingar á kvótakerfinu. Velflestir flokkar voru eftir kosningar líka sammála um að hægt væri að fara í breytingar á stjórnarskránni, en á síðasta kjörtímabili varð ekkert af neinni sátt aðallega vegna sérvisku eins flokks.