146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

sala Seðlabankans á hlut sínum í Kaupþingi.

[10:53]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ein af þeim ráðstöfunum sem gripið var til hér á eftirhrunsárunum var að koma upp sérstöku eignarhaldsfélagi í Seðlabankanum til að annast eignaumsýslu vegna ýmissa veðeigna sem Seðlabankinn hafði þá tekið yfir eða höfðu fallið í hans skaut. Ef eitthvað er tel ég að reynslan hafi sýnt að það hafi verið skynsamleg ráðstöfun vegna þess að valkosturinn, að taka allar þessar eignir í fangið og koma þeim í einhvers konar hraðsöluferli, einhver hefði kallað það á þeim tíma brunasölu, var vissulega til staðar. En menn ákváðu að gefa sér tíma, koma á fót þessu félagi, ráða fólk, skipa sérstaka stjórn yfir félagið til þess að vanda sig við sölu og meðferð þessara eigna. Niðurstaðan hefur verið sú, ef horft er út frá efnahag Seðlabankans, að af þessari starfsemi hefur verið umtalsvert mikill afgangur á undanförnum árum.