146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

framlög í fjármálaáætlun og kosningaloforð.

[10:54]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Framsýni og jafnvægi voru einkunnarorð forsætisráðherra í stefnuræðunni. Því væri freistandi að spyrja hæstv. forætisráðherra um þá skammsýni og kosningasvik sem birtast í því að hækka ekki framlög til sjúkrahúsþjónustu um meira en 0,41% á næsta ári, sem verður til þess með auknum fjölda sjúklinga að það þarf líklega að skera niður á Sjúkrahúsinu á Akureyri og á Landspítalanum.

Það væri líka freistandi að spyrja um þá skammsýni og skort á réttlætiskennd sem birtist í því að styðja ekki betur við það fólk sem býr við fátækt í landinu og þau 6 þús. börn sem búa við skort, að styðja ekki betur við þá sem lægstu launin hafa. Það er réttlætismál.

Ég ætla hins vegar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það sé ekki skammsýni sem birtist í fjármálaáætluninni þegar kemur að hinu nýja atvinnulífi. Við erum að fara að mæta gerbreyttum veruleika með gervigreind, sjálfvæðingu, breyttum störfum þar sem vélar taka ekki bara yfir hlutverk vöðvaaflsins heldur líka hugaraflsins. Fyrst menn vildu á þessum spennutímum lækka skatta, hefði þá ekki verið nær að lækka tryggingagjaldið frekar en almennt virðist, svipað þrep, og skapa þannig skilyrði fyrir vel launuð störf og þekkingarfyrirtæki í staðinn fyrir að ýta undir einkaneyslu þegar við upplifum methagvöxt? Er ekki nauðsynlegt að háskólar á Íslandi standi jafnfætis háskólum annars staðar á Norðurlöndum? Verða það ekki háskólarnir okkar sem þurfa að búa okkur undir þetta nýja atvinnulíf?

Ég spyr þá: Er forsætisráðherra tilbúinn í kjölfar þessarar umræðu til að velta því fyrir sér að færa til peninga og leggja grunninn að fjölbreyttari og betri störfum í framtíðinni?