146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

framlög til nýsköpunar.

[11:01]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Við stjórnmálamenn minnum oft á hve mikilvæg nýsköpunin er, hvað hún skiptir framvindu samfélagsins miklu máli. Við tölum af þunga um rannsóknir í þróun atvinnuveganna og það er verið efla þær með öllum ráðum. Í ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem er hennar pólitíska hagfræði, er eitt af málefnasviðunum nefnt rannsóknir, nýsköpun og þekkingargreinar. Þar undir eru meðal annars helstu sjóðir sem þarna koma við sögu. Það eru líka sett fram markmið, það er raunar ein af þeim bólgnu hliðstæðum sem við höfum séð á nokkrum sviðum, um að Ísland verði leiðandi á sviði rannsókna og þekkingar, verði leiðandi á því sviði. Hvar ætlum við ekki að vera leiðandi á þessari öld? Undir það er svo felld aukin framleiðni á þessu sviði, aukin hagnýting og ný störf í þekkingargeiranum. Í töflum um aðgerðir á málasviðinu eru engar fjárhæðir en þeim mun oftar stendur: Verður forgangsraðað innan ramma.

Frú forseti. Þá er að skoða rammann allra aftast í kaflanum. Þar sést að framlög til ársins 2018 lækka um 120 millj. kr. en eftir það, næstu ár til ársins 2022, er meðalhækkun milli ára í framlögum 120 millj. kr., eða sem svarar einbýlishúsi á dýrum stað í höfuðborginni.

Ég spyr hæstv. ráðherra nýsköpunar: Hvernig rímar þessi sérkennilega fjárhagsáætlun á umræddu málefnasviði við þarfir samfélagsins, hvað þá þetta undarlega markmið um leiðandi stöðu á heimsvísu? Ég er ekki að biðja um hugleiðingar um ríkisfjármál, ég er að biðja um staðgóð svör við nákvæmlega þessari spurningu.