146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í umsögn fjármálaráðs um fjármálastefnuna kom fram að mikil óvissa væri undirliggjandi um forsendur fjármálastefnunnar, ekki væri tekið nægjanlegt tillit til þeirrar hagstjórnar sem hlytist af stefnunni, undirliggjandi afkoma væri óljós og sett voru fram þau varnaðarorð að stjórnvöld gætu lent í spennitreyju fjármálastefnunnar ef atburðarásin reyndist önnur en spár gerðu ráð fyrir. Í þessari stefnu er sett, til viðbótar við þær reglur sem voru lögbundnar gegn atkvæðum okkar Vinstri grænna og Samfylkingar í lögum um opinber fjármál, sú viðbótarregla að hér sé sérstakt útgjaldaþak. Hér er því mjög aðhaldssöm hægri sinnuð fjármálastefna á ferð þar sem um leið er ekki nægjanleg vissa fyrir því að stefnan skili þeim árangri sem til er ætlast. Ekki er tekið tillit til þeirrar uppsöfnuðu fjárfestingarþarfar sem er í samfélaginu. Það er viðurkennt í nefndaráliti meiri hlutans en vísað til annarra leiða, svo sem einkaframkvæmdar eða slíkrar fjármögnunar (Forseti hringir.) á samfélagslegum verkefnum. Við þingmenn Vinstri grænna segjum nei við þessari stefnu.