146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í lögum um opinber fjármál er sett fram þetta ferli um fjármálastefnu, fjármálaáætlun og fjárlög. Í fjármálastefnu á að tiltaka ákveðin atriði í grunnumgjörð hagkerfisins til næstu fimm ára og ekkert nema hamfarir geta leitt til endurskoðunar á þeirri stefnu. Í þessari stefnu er meðal annars tiltekið, fyrir utan það sem vantar, sem er vandamál, að allar einskiptistekjur, allar, engar undantekningar, eigi að fara til niðurgreiðslu skulda, sama þó að hagkvæmt væri að setja slíkar einskiptistekjur í tilfallandi framkvæmdir. Við þingmenn Pírata teljum þetta erfitt en kannski áhugaverða áskorun og hlökkum til að fylgjast með því hvernig farið verður eftir þessu ákvæði. Við teljum ekki ráðlegt að hafa þetta ákvæði í stefnunni og munum því segja nei.