146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:21]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist undir þessum skýringum hæstv. ráðherra hér. Hér talar hæstv. heilbrigðisráðherra um hófsama millileið í fjármálastefnu þar sem búið er að boða aukið einkafjármagn, þjónustugjöld og ýmislegt fleira sem þýðir aukinn kostnað sem velt er yfir á almenning. Það sást greinilega, þegar við ræddum fjármálaáætlunina í gær, sem byggir að sjálfsögðu á þessari stefnu. Hvaða leikriti erum við stödd í? Hæstv. heilbrigðisráðherra talar um að þegar betur ári megi setja frekara fjármagn í uppbyggingu innviða. Þá kemur hæstv. forsætisráðherra og segir að stefnan sé ekki nægjanlega aðhaldssöm. Á tveimur til þremur mínútum birtist ágreiningur ríkisstjórnarinnar. Menn geta lofað öllu fögru inn í framtíðina en ábyrg afstaða er að láta orðin tala, gera eins og maður hefur lofað (Forseti hringir.) núna, ekki fleyta því inn í framtíðina og segja: Ég mun einhvern tímann standa við loforðin mín.