146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta, um heilbrigðismál:

„Örugg og góð heilbrigðisþjónusta, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, verður forgangsmál ríkisstjórnarinnar.“

Hæstv. forsætisráðherra Bjarni Benediktsson sagði hér rétt áðan að hagsveiflan yrði nýtt til að lækka skuldir ríkissjóðs. Það er forgangsmál Sjálfstæðisflokksins að lækka skuldir. Við skulum þá blygðunarlaust segja það og viðurkenna það. Svo kemur hv. þm. Hanna Katrín Friðriksdóttir, þingflokksformaður Viðreisnar, og segir að það að lækka vexti sé langstærsta hagsmunamál heimilanna. Langstærsta hagsmunamálið og forgangsmálið — á það ekki að vera heilbrigðiskerfið, örugg heilbrigðisþjónusta? Svo segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra: Við þurfum að bíða fram á mitt kjörtímabil þegar betur árar. Átti forgangsmálið ekki að vera örugg heilbrigðisþjónusta? En hvað kemur fram í þessari fjármálastefnu og í fjármálaáætluninni? Það er ekki verið að setja sjúkrahúsin í forgang, en forgangur þarf að vera innan heilbrigðiskerfisins ef við ætlum að hafa öryggi að leiðarljósi, sem var lofað fyrir kosningar, sumir voru að vísu bara með áherslur. (Forseti hringir.) Þetta er staðan. Þetta er það sem er í forgangi hjá þessari ríkisstjórn. Komið bara fram og viðurkennið það.