146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:28]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mér þykir mjög umhugsunarvert að hlusta á umræður hér frá minni hlutanum. Þegar horft er til þeirra hagsveiflna sem við höfum farið í gegnum á undanförnum árum — við erum nýstigin upp úr mjög djúpri kreppu — þá þykir mér nokkuð ljóst af orðum minni hlutans hér, þar sem krafist er stóraukinna útgjalda umfram það sem þegar er kynnt í fjármálaáætlun, að þau hafi ekkert lært af hagstjórnarmistökum fyrri ára. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Hér er verið að auka útgjöld verulega og á sama tíma verið að reyna að gæta aðhalds þegar kemur að hagstjórn. (Gripið fram í.) Á sama tíma hygg ég að útgjöld til velferðarmála sem hlutfall af útgjöldum ríkisins hafi aldrei verið hærra, eins og kemur skýrt fram í ríkisfjármálaáætluninni sem liggur fyrir. Ég furða mig mjög á málflutningi minni hlutans í þessu. Að sjálfsögðu styð ég þá áherslu sem hér er lagt upp með. Hér er lagt upp með ábyrga efnahagsstjórn og á sama tíma skýra og algjöra forgangsröðun í þágu velferðar.