146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta er ríkisstjórn ríka fólksins, við skulum ekki gleyma því. Hún er ekki tilbúin til að taka inn tekjur þar sem þeirra er að vænta. Hún vill ekki leggja á gjöld til að hægt sé að mæta kosningaloforðum sem ég man ekki betur en Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð hafi rætt hér fyrir kosningar. Það var ekki sagt af hálfu þessara flokka að þeir ætluðu bara að setja pínupons í heilbrigðismálin og síðar á kjörtímabilinu yrði kannski eitthvað pínulítið meira gert fyrir aðra málaflokka. Ég kannast ekki við að hæstv. fjármálaráðherra hafi talað þannig í mínu kjördæmi. Það var talað um að byggja upp innviði. (Gripið fram í: Blekkingar.) — Þetta eru ekkert annað en blekkingar, svo sannarlega. Hér er mikil þörf á innviðauppbyggingu. Ég kannast ekki við að hæstv. ráðherra, sem fer með vegamál, hafi sagt að ekki þyrfti að byggja svo mikið upp og að örfáir milljarðar dygðu til þess. Hér var samþykkt samgönguáætlun sem hann tók þátt í ásamt öðrum, en stóð svo ekki við að fjármagna og mun ekki standa við (Forseti hringir.) á komandi árum, ekki með þessari stefnu.