146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:39]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við þessa atkvæðagreiðslu er talsvert mikið komið inn á það sem ætti með réttu að heyra undir fjármálaáætlunina vegna þess að hér erum við fyrst og fremst að tala (Gripið fram í.) um tekju- og gjaldalínuna, aðhaldsmarkmiðin, skuldaþróunina og slíka hluti. Á grundvelli þessarar vinnu förum við síðan í fjármálaáætlunina sem er hér á dagskrá síðar í dag.

Mér finnst menn tala í kross þegar sagt er annars vegar að aðhaldið sé of mikið og hins vegar að það vanti stórkostlega mikið á útgjaldahliðina. Það er alveg augljóst að þeir sem tala fyrir stórauknum útgjöldum, við þær efnahagsaðstæður sem nú eru uppi, með 7% hagvöxt í fyrra, mjög myndarlegan hagvöxt á þessu ári, munu þurfa að fara í verulega miklar skattahækkanir og gjaldabreytingar. Það er ekkert annað sem getur legið slíkum yfirlýsingum til grundvallar. Þá er bara ágætt að velta því upp: Var það það sem var kosið um síðastliðið haust, að fara í stórfelldar skattahækkanir við þessar aðstæður? (Gripið fram í.) Ég held nefnilega að þetta sé ómur af Lækjarbrekkufundunum sem því miður náðu ekki fram að ganga.