146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil bara koma hér upp og þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni. Ég held að hv. þingmenn stjórnarflokkanna séu teljandi á fingrum annarrar handar, þrír, sem tóku þátt í umræðunni um þetta langtímaplagg, þessa stefnumótun sem ríkisstjórnin ætlar að fylgja eftir. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra og þeim hæstv. ráðherrum sem hér hafa komið upp og reynt að verja þessa stefnu. Hins vegar höfum við ekki enn fengið útskýringar á því hvernig meiri hluti fjárlaganefndar kemst að þeirri niðurstöðu að bregðast ekki við ábendingum fjármálaráðs, sem ég fór yfir hér áðan, bæði í ræðu og atkvæðaskýringu, þar sem bent er á alla þá efnahagslegu óvissuþætti sem eru til staðar í stefnunni, þar sem bent er á ýmsa veikleika í stefnunni, þar sem gagnrýnt er útgjaldaþakið sem sett er á, til viðbótar við hin lögbundnu skilyrði, og ekkert er brugðist við en vitnað til þess í nefndaráliti meiri hlutans að vissulega sé mikil fjárfestingarþörf fyrir hendi en hana verði að leysa með öðrum hætti. Það er alla vega gott. Við bara fögnum (Forseti hringir.) því að menn vakni hér inn í þessa umræðu því að þetta er plaggið sem á að binda hendur okkar langt inn í framtíðina.