146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu.

177. mál
[11:47]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þingflokkur VG styður fullgildingu þessa fríverslunarsamnings. Ég vil minna á og halda til haga sjónarmiðum VG í umræðum um samninginn hér í þingsal því að í fylgiskjali með samningnum er tekið fram að EFTA-ríkin árétti þá skuldbindingu sína að styðja við lýðræði, réttarreglur og mannfrelsi, en á sama tíma eru mannréttindi borgara í Georgíu fótum troðin. Einnig létum við þingmenn VG í ljós áhyggjur okkar af því að ekki nægilega skýrt væri uppfyllt í samningnum alþjóðlegt samkomulag á borð við Parísar-samkomulagið er lýtur að loftslagsmálum. Ég vil því hvetja utanríkisráðherra, sem er mikill áhugamaður um fríverslunarsamninga, til að beita sér fyrir því af alvöru að skuldbindingar EFTA-ríkjanna, um að styðja við sjálfbærni, loftslagsskuldbindingar og ekki síst við lýðræði, mannfrelsi og réttarfrelsi, séu virtar.