146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra fer með fyrirsvar framkvæmdarvaldsins gagnvart þinginu. Það er mín skoðun í ljósi þeirra sjónarmiða sem hann viðrar að hann eigi að beita sér í þessu máli. Ef við skoðum fjármálaáætlunina sem við erum að ræða snúast þær auknu fjárveitingar til Alþingis sem þar má finna um að byggja hér nýtt hús. Þær snúast ekki um að styrkja Alþingi.

Þegar lögin um opinber fjármál voru samþykkt fylgdu sérfræðingar inn í öll ráðuneyti til að innleiða lögin — en ekki inn í Alþingi. Kannski er þetta ástæðan fyrir því að þegar fjármálastefnan kemur til þinglegrar meðferðar gleymist að senda hana til umsagnar í efnahags- og viðskiptanefnd. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur enn ekki farið yfir og lagt mat á þjóðhagslegar forsendur fjármálastefnunnar sem við erum búin að samþykkja. Kannski er þetta ástæðan fyrir því að við fáum tilmæli inn í efnahags- og viðskiptanefnd um að þegar við eigum að skila umsögn um fjármálaáætlunina eigi það bara að vera ein umsögn og nánast búið að búa til forskrift um það hvað við eigum að segja sem nefnd.

Að sjálfsögðu gerum við það ekki þannig. Þetta er hápólitískt plagg. Við erum með gerólíkar skoðanir á því hvernig eigi að standa að tekjuöflun, hvernig útgjöld eigi nákvæmlega að þróast og hvert hlutfall samneyslunnar eigi að vera. Mér finnst, og það er mín tilfinning, að við séum að reyna að innleiða nýtt verkferli, langtímahugsun sem allir hafa tekið undir, séum samt ekki með tólin og tækin til að gera það og það sé verið að reyna að gera það með fljótaskrift.

Ég hef verulegar áhyggjur af að þegar við svo tökumst á við fjárlög í haust sem í raun og veru er búið að rígbinda samkvæmt fjármálaáætlun — hér vísa bæði hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar í að nú eigum við eftir að taka þetta allt fyrir í fjárlögum. Við erum vissulega að fara að ræða fjárlögin en þau eru samt rígbundin samkvæmt þeirri fjármálaáætlun sem við erum að ræða. Vinnulagið sem við erum að vinna samkvæmt núna skiptir öllu, það mun hafa fordæmisgildi inn í þingið þannig að það sem ég myndi vilja sjá er ákvörðun Alþingis um að styrkja Alþingi, ekki síst á þessu sviði. Við erum að taka upp gerbreytt fyrirkomulag. Önnur lönd hafa innleitt þetta fyrirkomulag á mörgum árum. Við gerum þetta (Forseti hringir.) á hinn íslenska hátt, á nokkrum mánuðum. Við viljum ekki lenda í því að Alþingi missi það hlutverk sem því er ætlað í stjórnarskrá, að fara með fjárstjórnarvaldið, hreinlega af því að flýtirinn er svo mikill.