146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:35]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hefja þessa fyrirspurn á því sem rætt hefur verið hér aðeins fyrr í dag, þ.e. á þessari tilraun sem við erum að gera, þ.e. að reyna að innleiða þetta verklag mjög hratt, og á þeirri leiðu staðreynd að það skuli jafnvel vera til skoðunar hvort þessi lög standist stjórnarskrá að því leyti að Alþingi hafi sett frá sér of mikið fjárveitingavald.

Það er galli eins og staðan er í dag — samanborið við það gegnsæi þegar menn vissu hvernig fjárlögin voru — að þetta er meira í þoku. Ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort menn í ráðuneytunum hafi velt því fyrir sér hvernig þeir geti tryggt þetta. Það er einfaldlega þannig að þegar þetta liggur fyrir vilja menn gjarnan sjá hvað er í vændum. Þegar maður skoðar fjármálaáætlunina, og ber saman mismunandi ráðuneyti, er ekkert óeðlilegt að í ljós komi að framsetning á markmiðum og slíku er mismunandi. Kostnaður er til að mynda alls ekki alltaf inni í þeim markmiðum sem viðkomandi ráðuneyti setur fram. Í öðrum ráðuneytum er vísað til þess að meiningin sé að fjármagna þetta innan ramma. Í einstaka tilvikum eru settar fram tölur en í mörgum tilvikum stendur ekki neitt. Sem þýðir þá að þeir sem horfa til þessa úti í samfélaginu fá enga hugmynd um hvað sé að fara að gerast á næstu fimm árum þó svo að það sé í texta. Þess vegna væri það svolítið áhugavert. Tökum lögregluna sem dæmi, ofbeldi á Íslandi: Hvernig á að lesa út úr þessu plaggi að menn ætli að taka á ofbeldi á Íslandi með því að lögreglan fái tiltekna fjármuni eða einhverjir aðrir? Það er mjög erfitt að lesa það út úr þessu plaggi.

Sjálfsagt getur þetta verið þróun en mig langaði aðeins að heyra hugmyndir hæstv. forsætisráðherra.