146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ef maður skoðar markmið einstakra ráðuneyta kemur í ljós — ef maður flettir málefnasviði almanna- og réttaröryggis, sem undir heyra lögreglan, Landhelgisgæslan o.fl. — að þar er aukningin á milli 2017 og 2018 um 545 millj. kr. En þar sem ríkisstjórnin hefur sett sér í fjármálastefnu, og kemur fram í áætluninni, 2% aðhald á hverjum tíma er það upphæð upp á 480 millj. kr. Við sjáum að það verður verulega vandasamt ætli menn sér að ná fram markmiðum sínum innan ramma.

Ég nefndi þetta vegna þess að það koma litlir fjármunir fram hjá dómsmálaráðuneytinu. Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er hins vegar gjarnan þessi setning: Verður forgangsraðað innan ramma. Það gildir það sama þar, ákveðnir liðir eru felldir undan aðhaldi. Horfum til dæmis á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti — við vorum með umræðu í óundirbúnum fyrirspurnum í morgun um Matvælastofnun og við þekkjum stöðuga viðbótarfjárþörf Hafrannsóknastofnunar — með 2% aðhald og bætum ramma í, þar sem aukningin er ekkert mikið meira en aðhaldið. Ég spyr hvernig menn muni þá sjá raunverulegan vöxt þessara stofnana innan ráðuneytanna á þessum fimm árum. Hvernig munu ráðuneytin í raun geta brugðist við, öðruvísi en þá að loka einhverjum verkefnum? Og ef verkefnin, eins og er á sumum málefnasviðunum, eru hreinn og klár rekstur stofnana en ekki endilega mikið af gæluverkefnum eða verkefnum sem menn finna upp á tímabundið er þetta viðvarandi rekstur, eftirlit, vöktun, rannsóknir? Hefur hæstv. forsætisráðherra ekki (Forseti hringir.) áhyggjur af því að á sama tíma og hér er boðuð aðhaldssemi í fjármálastefnu og fjármálaáætlun — rammarnir virðast nokkuð rúmir, þá muni aðhald upp á 2% mun valda þessum nákvæmlega sömu stofnunum verulegum vanda?