146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:46]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi uppbygginguna og innviðafjárfestinguna. Ég vil meina að það sé mjög góður samhljómur milli þess sem segir í stjórnarsáttmálanum og er að finna í áætluninni. Við skulum ekki gleyma því hversu miklu var varið í suma þessara málaflokka með ákvörðun Alþingis undir lok ársins 2016. Það verður að taka það með í reikninginn, sérstaklega þegar borið er saman við fyrri fjármálaáætlun, að í millitíðinni hafði þingið farið höndum um ríkisfjármálin og samþykkt fjárlög fyrir árið 2017 þar sem verulega var aukið við útgjöld víða í velferðarkerfinu. Ég nefni sérstaklega samgöngumálin.

Það er hins vegar alveg rétt, og ég hef komið inn á það hér áður, að það er mjög krefjandi verkefni að reyna að svara ákallinu um frekara fjármagn inn í rekstur og sjúkrahúsþjónustu eða aðra heilbrigðisþjónustu á sama tíma og við erum að byggja upp nýtt þjóðarsjúkrahús af miklum metnaði. Engu að síður er okkur að takast að bæta við í þessa málaflokka. Við erum sömuleiðis að bæta við mörgum milljörðum í lyfjamál og þjónustu, eins og í heilsugæslunni þar sem við erum að reyna að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu.

Því til viðbótar vil ég nefna að heilsugæslan, sjúkrahúsin, heilbrigðisþjónustan almennt, er ekki undanskilin þegar við leitum leiða til að tryggja hámarksnýtingu þess fjármagns sem við höfum úr að spila. Við gætum litið til McKinsey-skýrslunnar varðandi það efni.

Ég get kannski komið betur inn á gengismálin á eftir en í áætluninni er fyrir fyrst og fremst gert ráð breytingum á virðisaukaskatti og tryggingagjaldinu. Við erum sömuleiðis að draga úr tekjuskerðingum vegna eldri borgara með því að gert er ráð fyrir að frítekjumark vegna atvinnutekna verði hækkað. (Forseti hringir.) En við gerum á þessu stigi máls að öðru leyti ekki ráð fyrir það að verði mjög miklar skattbreytingar á kjörtímabilinu.