146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:48]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það eru miklar efasemdir um að þrátt fyrir að menn hafi bætt í heilbrigðisþjónustu, eins og marga fleiri þætti, dugi það til eflingar heilbrigðisþjónustunnar, eins og menn höfðu hástemmdar yfirlýsingar um fyrir kosningar. Ég bendi á sjúkrahúsþjónustuna sem er veik fyrir og mun lenda í vandræðum þegar á næsta ári að óbreyttu.

Mig langar aðeins að árétta þetta með gengið og áhyggjur manna vegna þess og hvort menn hafi hugsanlega gert áhættumat á því hvað kunni að gerast í okkar viðskiptum við erlendar þjóðir ef mönnum tekst ekki að ná góðum samningum við þá þjóð sem er að segja sig úr efnahagsbandalaginu. Brexit hefur verið til umfjöllunar. Það eru fleiri þjóðir sem eru að huga að aukinni einangrunarhyggju og úrsögn úr bandalaginu. Frakkland. Þar er óróleiki. Hafa menn búið sér til einhverja sviðsmynd hvað þetta varðar ef ekki tekst vel til í samningum?