146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þegar hann fullyrðir að ekki sé verið að bæta neinu við háskólastigið er það mjög gildishlaðin fullyrðing af þeirri einföldu ástæðu að krónulega er aukning í háskólastiginu. Við getum hins vegar verið sammála um að hún gæti verið meiri. Við getum líka verið sammála um, eins og komið hefur fram í úttekt sem gerð hefur verið á háskólanum hér á landi, að við erum að fjármagna háskólanám á Íslandi, þá er ég að meina í krónum talið, í ágætu samræmi við meðaltalið eins og gerist hjá OECD en við erum hins vegar með framlög á nemanda til muna lægri. Þegar leitað er að skýringunni í því efni er fyrst og fremst staldrað við að aldur nemenda í háskólum hér á landi er til muna hærri en alls staðar annars staðar gerist. Hann er langhæstur á Íslandi sem bendir til þess, að því er bestu menn segja sem til þekkja, að við séum með einhverjum hætti að stýra náminu sem veitt er á háskólastigi okkar í takt við það reiknilíkan sem búið er til og gefur skólunum fjármögnun eftir því sem þeir eru með stærri og fjölmennari námskeið. Flestir sem til þekkja í þeim efnum eru þeirrar skoðunar að okkur beri að endurskoða þetta til að geta aukið gæði náms. Sú vinna er hafin. Ég vænti þess að þegar henni vindur fram getum við séð fyrir bættari fjármögnun, betra starf og markvissara á sviði háskólanna en við höfum í dag.