146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég lýsi mig fyrir það fyrsta ekki sammála hv. þingmanni í þeirri skoðun að það ríki neyðarástand í íslenska háskólakerfinu. Ég held að við séum ekki á þeim stað. Ég nefni t.d. að Háskóli Íslands stendur sig mjög vel í alþjóðlegum samanburði, sérstaklega að því sem lýtur að rannsóknarumhverfi. Það er raunar mjög merkilegt að ná slíkum árangri hjá ekki fjölmennari þjóð þegar við berum okkur saman við árangur annarra skóla. En þetta er vissulega brothætt staða. Það ber að taka aðvörunarorð forsvarsmanna háskólanna alvarlega. Ég heyri kröfuna hljóma ágætlega úr háskólasamfélaginu. Ég heyrði líka hjá talsmönnum flokkanna á þingi í umræðu í gær um fjármálaáætlunina að þeir deila margir hverjir skoðunum varðandi fjármögnun á háskólastiginu. Það er alveg ljóst að væntingar þeirra sem þar lifa og starfa eru miklar. Þar er metnaður mikill og þar er unnið yfir höfuð mjög gott starf. Það ber að taka þau aðvörunarorð alvarlega.

En með sama hætti segi ég að sömuleiðis verður að gera þá kröfu til háskólanna þegar við berum okkur saman við háskólastarf í öðrum löndum að allir þættir séu undir í þeim efnum og ekki eingöngu horft á krónutölu slitna úr samhengi við aðra innviði háskólaumhverfisins.