146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:16]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég held að við getum öll verið sammála um að hagsæld þjóða byggir á að hún sé vel menntuð til að ná ákveðnum framförum. Við lestur fimm ára ríkisfjármálaáætlunar kom mér verulega á óvart að sjá þann litla vöxt sem er til háskólastigsins, í kringum 1,6% af meðaltali á ári. Í aðdraganda síðustu kosninga töluðu allir flokkar á þann veg að hér ætti að bæta verulega í til háskólastigsins því að hann hefur þurft að sýna verulegt aðhald á síðustu árum.

Fram kemur í máli háskólarektors að eina leiðin til að bregðast við þessu sé veruleg fækkun nemenda á háskólastiginu, það þurfi að fækka námsleiðum og námsgreinum. Þetta er mjög sláandi. Það er mikil ólga í Háskóla Íslands vegna málsins.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra og fá aðeins skýrari svör en komu fram fyrir stundu í máli hans: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að bregðast við því sem háskólarektor er að segja, að við horfum fram á að verið sé að fækka nemendum?

Einnig langar mig að spyrja hann: Ætlar ríkisstjórnin sér að ná OECD-meðaltalinu á kjörtímabilinu?