146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:20]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Ég verð að viðurkenna að ég náði þeim samt ekki alveg. Eins og þetta blasir við okkur mörgum þingmönnum skil ég háskólarektor þannig að ef það verður ekki breyting á þessu blasi við hálfgert neyðarástand í Háskóla Íslands. Ég hef verulegar áhyggjur af því þegar við heyrum háskólarektor tala um að hér sé um að ræða aðför að rannsóknarháskólunum. Ég held að til þess að við förum í þetta og setjum fram heildstæða áætlun um menntamál þurfi að taka þetta mjög alvarlega. Mér finnst ég líka heyra í háskólunum að vaxandi þungi sé í málflutningi manna. Ég lít á það þannig að ef Ísland ætlar að vera samkeppnisfært samfélag á 21. öldinni sé lykilatriði að við hlúum að rannsóknum, að þekkingarsamfélaginu. Við vitum að það eru að verða ofboðslega miklar breytingar á vinnumarkaðnum. Mikið af þeim störfum sem eru uppi í dag verða líklega ekki til eftir 10–20 ár. Til þess að búa í haginn fyrir framtíðina þurfum við að fylgjast verulega vel með, standa okkur mjög vel er varðar rannsóknir, og til þess að breikka og efla hagkerfið okkar svo meira komi í hlut nýsköpunar og annars slíks iðnaðar, það myndi ég gjarnan vilja sjá. Lykilatriði í því er að vera með öfluga rannsóknarháskóla. Þess vegna lýsi ég yfir mjög miklum áhyggjum ef það er ekki til heildstæð nálgun á hvernig eigi að bregðast við áhyggjum Háskóla Íslands.