146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að það hljóti að vera draumastarf allra stjórnmálamanna sem vilja láta til sín taka í íslensku samfélagi í dag að vera menntamálaráðherra. Menntamálin munu gegna lykilhlutverki þegar kemur að því hvernig Íslandi farnast á næstu árum á tímum gríðarlegra samfélagsbreytinga með tæknibyltingu, gervigreind og öllu því sem ég er alltaf að tala um.

Þess vegna ætti menntamálaráðherra að vera hér á skyrtunni með uppbrettar ermar með byltingarglóð í augum og berjast fyrir fjármagni inn í kerfið í staðinn fyrir að verja mjög varfærna áætlun því að það eru nægir möguleikar á þessu fordæmalausa hagvaxtarskeiði til að sækja peninga í kerfið frá þeim sem eru vel aflögufærir.

Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra: Nú vantar þúsund leikskólakennara og skortur er á grunnskólakennurum í landinu. Hvernig ætlar hann að bregðast við þeim fyrirsjáanlega skorti, sem er alvarlegur? Hefur hann eða mun hann fylgja eftir kröfum og loforðum sem voru gefin í haust við gerð samkomulags um jöfnun lífeyrisréttinda um að hækka laun t.d. kennara og annarra starfsmanna í opinberri þjónustu? Og hvernig þá?

Háskólasamfélagið mun einnig gegna lykilhlutverki í þessari nýju atvinnubyltingu. Það er ekki í boði að við séum hálfdrættingar á við Norðurlöndin og undir OECD-viðmiðum. Hér var talað um menningu og listir. Skapandi greinar skipta gríðarlega miklu máli. Það verður leitað eftir slíkum einstaklingum. Mig langar að spyrja hvort hæstv. ráðherra Kristján Þór Júlíusson ætli að koma með mér í þá vegferð að berjast nú virkilega fyrir framgangi menningar, lista og skapandi greina ásamt því að setja meiri pening inn í háskólana. Ég mun svo spyrja út í aðgerðir á eftir.