146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og brýninguna. Ég þigg hana með þökkum. Ég er nú frekar rólyndur maður að eðlisfari en tel mig þó hafa þokkalega sýn á öll þau mál sem ég vil berjast fyrir. Ég get fullvissað hv. þingmann um að ég hef ágætan og mikinn metnað fyrir þeim málaflokkum sem mér er trúað fyrir í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. (Gripið fram í: Það er nú skap í þér.) — Um það getur fyrrverandi félagsmála- og húsnæðismálaráðherra vitnað, við unnum saman lengi.

Þegar hv. þingmaður spyr hvernig fjölga eigi hjúkrunarfræðingum og kennurum þá bendi ég á að í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem gerði úttekt á kennaranáminu, að fjöldinn sem við menntum er kannski ekki höfuðatriði. Af einhverjum ástæðum hverfur fólkið sem er menntað frá því starfi sem það hefur menntað sig til. Með þeim hætti töpum við fjárfestingunni sem við höfum lagt í sem ríkisvald, þ.e. þeirri menntun sem þarna er um að ræða. Það eru flóknari þættir.

Hv. þingmaður spyr hvernig menntamálaráðherrann ætli að beita sér til þess að innihaldið í SALEK-samkomulaginu verði virt varðandi launajöfnuð. Þá erum við komin á annað málefnasvið sem heyrir undir fjármálaráðherra. Það er betra að beina slíkum spurningum þangað inn. En ég skal styðja fjármálaráðherra til allra góðra verka í þeim efnum. Það er alveg augljóst, þrátt fyrir að við séum í samanburði við t.d. Norðurlöndin með flesta hjúkrunarfræðinga á 100 þús. íbúa, að þörfin fyrir hjúkrunarfræðinga eins og henni er lýst fyrir okkur úr heilbrigðisþjónustunni, er gríðarlega mikil og við verðum með einhverjum hætti að bregðast við því ástandi sem þar er að skapast.